PIDOT96GÄSTABUD

 

 

   
 

Leikhúsgjörningurinn Pidot96Gästabud var sýndur í 40 daga, þrisvar sinnum á dag, morgunn, hádegi og kvöld, sumarið 1996 í Peukalopotti leikhúsinu í Vasa í Finnlandi. Leikstjóri og hugmyndafræðingur verksins var Kristiina Hurmerinta. Hún fékk til liðs við sig finnska og íslenska listamenn og hönnuði. Hér á myndinni sjást listakonurnar sem komu frá Íslandi. Frá vinstri: Jórunn Sigurðardóttir leikkona, Dröfn Friðfinnsdóttir myndlistarkona, Margrét Jónsdóttir leirlistakona og Helga Pálína Brynjólfsdóttir textílhönnuður.

Sýningin var unnið út frá Þrem systrum eftir Tsjekhov, Samdrykkju Platons, Le Medianoche amoureux eftir Michel Tournier o.fl. og ákveðið að byggja upp sýningu þar sem leikhúsgestir kæmu í mat og notuðu alvöru sérhannaða nytjahluti en ekki leikmuni. Samvinna tókst með kokkaskólanum í Vasa og fjölmörgum fyrirtækjum og framleiðendum og hönnuðir og listamenn unnu röð einstakra nytjahluta til notkunar sem síðan átti að selja.
Í hugmyndavinnunni voru ákveðin þau atriði sem táknuðu hverja systurina fyrir sig og þá um leið þá máltíð sem tileinkuð var hverri þeirra. Þannig var Olga morguninn: morgunmatur, jörðin, gróft hráefni og jarðarlitir; Irina var hádegi, sjór, tærleiki, spegill, æska, léttleiki, fínlegt hráefni og ljóst; og Masja var eldurinn, það villta og ótamda, kvöld, dökkt hráefni og dýrslegt.